Þungarokksþátturinn - Stokkið í eldinn

017. BLEEDING VOLCANO viðtalið (saga, örlög og læti)

Episode Notes

"Fjólublátt hraun við barinn"

Hin leyndardómsfulla Íslenska þungarokkssveit, BLEEDING VOLCANO (1990 og 1992), fór mikinn þrátt fyrir stuttan líftíma. Má segja að sveitin hafi búið í einhverju einskismannslandi hvar ein þungarokksstefna virtist hvorki mæta né taka við af annarri.
  
Þetta var stuttur tími en í þessum glugga átti margt og mikið sér stað og er saga BLEEDING VOLCANO furðu "kjötuð" þegar upp er staðið. Þótt þeir hafi verið sér á báti hér heima þá voru þetta drengir með metnað og höfðu augastað á erlendum miðum enda átti þeirra þunga og melódíska rokk samtón með því ferskasta út í heimi á þeim tíma, tónlist sem átti eftir að taka yfir að stórum hluta. BLEEDING VOLCANO hefði klárlega átt erindi ytra. Það er þetta með að vera réttir menn, á röngum stað á réttum tíma.

Hallur Ingólfsson (trommur), Sigurður Gíslason (gítar) og Vilhjálmur Goði (söngur) mættu í hljóðver Stokkið í eldinn og voru afburðar skemmtilegir viðmælendur. Samtal þetta veitir einstaka og ríka innsýn inn í rokklandslagið eins og það var á þessum tíma: mikið af tengingum, afhjúpunum, nöfnum á spilurum og hljómsveitum þess tíma o.s.frv. Saga rokksins, sannarlega. Guðmundur Þ. Sigurðsson (bassi) búsettur í Kanada lét svo í sér heyra símleiðis og gammurinn gaus sem aldrei fyrr. Aukinheldur var demó grafið upp sérstaklega fyrir þennan þátt ásamt tónleikaupptökum. 

Eina hljóðversskífa sveitarinnar, Damcrack, kom út 1. október árið 1992. Hæg og kremjandi aurksriða kemur í huga eða vel vopnað risa-beltisdýr sem ekki verður stöðvað. Lögin á Damcrack velta áfram af grimmri sannfæringu. Eldfjallið er virkt, eftir allt saman, og reiknað er með miklu sprengjugosi 21. Mars í Bæjarbíó. Aðeins í þetta eina skipti! Það verður mikið um dýrðir. 



Við minnum fólk á að fylgja okkur á Instagram og Facebook!

Alltaf sama platan er kirfilega studd af Luxor: tækjaleigu og sölu
Ljós // Hljóð // Mynd // Svið. 
Tæki og þekking. Luxor eiga ljós, myndavélar, hljóðkerfi, svið og skjávarpa til sölu og leigu svo fátt eitt sé nefnt.
Luxor er þekkingarhús viðburða. 
Smellið á www.luxor.is og rannsakið. Sláið á þráðinn og fáið ráðgjöf